Ferðamönnum fagnað

28. júlí 2020

Ferðamönnum fagnað

Helgistund í Illugastaðakirkju - sr. Gunnar Einar Steingrímsson, Laufási

Margur er á ferð um landið þessa fallegu sumardaga.

Fólk sem er í orlofshúsum hvort heldur í orlofsbyggð eða ekki, fólk í sumarbústöðum - og fólk á ferðalagi - hefur ætíð tækifæri til að líta í kirkjur í nágrenninu. Kirkjuhús eru trúar- og menningarverðmæti sem eru þess verðar að skoða. Margt kemur þar á óvart.

Orlofsbyggðin að Illugastöðum í Fnjóskadal er vinsæl og vel sótt. Enda umhverfið afar fagurt og margt að sjá.

Sú hefð hefur skapast að bjóða ferðafólki upp á helgistundir í Illugastaðakirkju. Margt fólk í orlofsbyggðinni sækir þessar helgistundir sem eru haldnar relgulega. Fólk lætur vel af þessu helgihaldi og kirkjan.is hvetur ferðalanga til að huga að því hvort ekki sé boðið upp á helgihald í nágrenni dvalarstaða þeirra. 

Kirkjan.is hafði samband við Hlíf Guðmundsdóttur á Illugastöðum og spurði hvenær þessar helgistundir hefðu byrjað. Hún segir að það hafi verið 1979 og það hafi verið sr. Pétur Þórarinsson sem hafi átt hugmyndina. Helgistundirnar voru að hennar sögn vel sóttar fyrstu árin. Nú sé aðsóknin misjöfn en þau sem hún heyri í séu ánægð með stundirnar.

„Ég held að aðsóknin yrði meiri ef við gætum boðið upp á lifandi tónlist með tónlistarfólki héðan og þaðan,“ segir Hlíf og bætir við, „því miður leyfir efnahagur okkar það ekki.“

Kirkjan á Illugastöðum
Hún stendur á Pétursvelli og var reist árið 1860 af Þuríði Aradóttur frá Skútustöðúm. Kirkjan er ekki lengur sóknarkirkja því að sókn hennar sameinaðist Hálssókn árið 2000. Altaristaflan kom úr Hálskirkju og er ekki vitað hver málaði hana. Önnur altaristafla í kirkjunni er máluð af Jóni Hallgrímssyni frá Naustum, árið 1765. Orgel gaf sr. Sigtryggur Guðlaugsson og altarisklæðið gerði Unnur Ólafsdóttir. Altarisstjakar eru frá 17. öld og sömuleiðis prédikunarstóll kirkjunnar. Það er sr. Gunnar Einar Steingrímsson í Laufási sem þjónar Illugastaðakirkju.

hsh


Prédikunarstóllinn er frá árinu 1683 og létu Gísli Þorláksson (1631-1684, biskup,
og kona hans, Ragnheiður Jónsdóttir, (1646-1715) gera stólinn.
Talið er að hann sé útskorinn af Guðmundi Guðmundssyni úr Skagafirði.