Lykill að góðu ári

2. janúar 2021

Lykill að góðu ári

Lykilorð - góður förunautur í hversdeginum

Sumt fólk hefur mikla elju og er drifið áfram af trú og hugsjón sem getur góða hluti af sér.

Kostir einstaklingsframtaksins eru margir og einkum þeir að láta ekkert bregða fæti fyrir góðan ásetning og einlægan framkvæmdahug. 

Kirkjan.is fékk nokkru fyrir jól í hendur yfirlætislausa og snotra bók sem heitir Lykilorð 2021 - Orð Guðs fyrir hvern dag. Og myndin á bókarkápunni er einstaklega falleg eins og sjá má. Á sama hátt og íslenski hesturinn var þarfasti þjónninn um aldaraðir þá getur þessi bók þjónað fólki vel. Þetta er bók sem fer vel í vasa og geymir tvo örstutta ritningarlestra fyrir hvern dag ársins og að auki fylgir snjöll tilvitnun við hæfi.

En hvaða bók er þetta?

Lykilorð hefur verið gefin út á íslensku frá árinu 2005 en saga hennar er býsna gömul þar sem hún hefur komið út frá árinu 1731! Uppruni bókarinnar er þýskur og henni er ætlað að vera hjálparlykill fyrir trúað fólk og þau sem vilja kynnast Biblíunni nánar. Hún getur líka nýst sem bænabók og vegvísir í lífinu; bók sem hvetur og gleður.

Bækur sem Lykilorð koma mjög mörgum að gagni og ekki síst fólki í nútímanum sem er á hlaupum í margvíslegum erindagjörðum í hversdeginum. Ein setning, tilvitnun í Biblíuna, eða kristið spakmæli og vísdómsorð, getur verið sem andleg vítamínsprauta í hinum og þessum aðstæðum. Vakið umhugsun um það sem skiptir máli og orðið tilefni til að íhuga trú og annað er henni tengist. Bókin Lykilorð getur sömuleiðis leitt fólk að sjálfri bók bókanna, Biblíunni.

Þau sem standa að baki íslensku útgáfunni eru hjónin Cornelia og Aðalsteinn Þorsteinsson á Hjalla í Reykjadal, Suður-Þingeyjarsýslu. Hjónin stofnuðu sjálfseignastofnunina Lífsmótun sem byggir á kristnum grunni og um þetta merka félag má lesa í sérstakri skipulagskrá sem því var sett. Augljóst er að vandað er til verka í smáu sem stóru. 

Það er Lífsmótun sem gefur bókina út. Sr. Kjartan Jónsson ritar inngangsorð og auk þess eru stuttar leiðbeiningar um notkun bókarinnar fremst í henni. Annars er hún einföld í notkun. 

Kirkjan.is mælir með þessari litlu bók, Lykilorð sem ber nafn við hæfi. Hún hentar í raun öllum og að auki er hægt að fá hana sem rafbók. Það er gott að taka hana með í för daganna á nýju ári. Góður ferðafélagi og vinur.

Lykilorð þessa dags, 2. janúar er: hsh

  • Guðfræði

  • Kærleiksþjónusta

  • Menning

  • Trúin

  • Frétt

Fallegur engill á gömlu leiði í Hafnarfjarðarkirkjugarði

Aldargamall

05. mar. 2021
...í Hafnarfirði
Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra, opnar ljósmyndasýningu á vegum Hjálparstarfs kirkjunnar. Frá vinstri: Þorkell Þorkelsson, ljósmyndarinn, Bjarni Gíslason, framkvæmdastjóri Hjálparstarfs kirkjunnar, og ráðherrann - mynd: hsh

Mögnuð sýning

04. mar. 2021
...staldrað við litríkar myndir
Altaristaflan umdeilda í Uggeløse-kirkju á Norður-Sjálandi - stef hennar er hringstigi – kannski Jakobsstigi – sem er upprisutákn; sjá nánar á heimasíðu kirkjunnar.  Mynd: Kristeligt Dagblad

List og kirkja

03. mar. 2021
...umdeild altaristafla