Um bænavikuna

Bænavika var fyrst haldin árið 1908

UM BÆNAVIKUNA

Átta daga bænavika fyrir einingu kristninnar var fyrst haldin með formlegum hætti árið 1908. Frá árinu 1968 hefur Heimsráð kirkna (e. World Council of Churches) ásamt Páfaráðinu fyrir einingu kristninnar (e. Pontifical Council for Promoting Christian Unity) staðið að útgáfu sameiginlegs efnis til notkunar í bænavikunni um heim allan. Víða miðast vikan við minningardag játningar Péturs, 18. janúar, og Pálsmessu að vetri, 25. janúar. Á suðurhveli jarðar þar sem gjarna eru sumarfrí í janúar er bænavikan haldin í tengslum við hvítasunnu.
Innan Heimsráðs kirkna eða Alkirkjuráðsins eru 350 kirkjur um víða veröld, alls um hálfur milljarður kristins fólks með fjölbreytilegar hefðir. Rómversk kaþólska kirkjan á ekki aðild að Heimsráðinu en samkirkjulega bænavikan fyrir einingu kristninnar er gott dæmi um samstarf milli þessara stóru hreyfinga. Um 1.2 milljarður manns tilheyrir Rómversk kaþólsku kirkjunni.
Alþjóðleg samkirkjuleg bænavika fyrir einingu kristninnar hefur verið haldin á Íslandi frá 1980 og voru því 40 ár liðin í janúar 2020.

Smelltu á myndina til að sjá efni um bænavikuna frá World Council of Churches Merki Alkirkjuráðsins - merki hinnar samkirkjulegu hreyfingar

UM SYSTRASAMFÉLAGIÐ Í GRANDCHAMP

Efni bænavikunnar árið 2021 er byggt á orðum Jesú í Jóhannesarguðspjalli: Verið stöðug í elsku minni og þið munuð bera mikinn ávöxt (Jóh 15.5-9). Það endurspeglar köllun systrasamfélagsins í Grandchamp í Sviss til bænar, sáttargjörðar og einingar kirkjunnar og mannkyns í heild. Systrasamfélagið í Grandchamp varð til á fjórða áratug síðustu aldar þegar hópur kvenna úr reformertu kirkjunni í frönskumælandi Sviss enduruppgötvaði mikilvægi kyrrðar í samfélaginu við Guð. Þær hófu að safnast saman til kyrrðardvalar til að næra trúarlíf sitt innblásnar af dæmi Krists sem iðulega vék burt á óbyggðan stað til að biðjast fyrir í einrúmi (Mark 1.35, Matt 14.23).

Konurnar fengu inni á sveitasetri Bovet fjölskyldunnar í Grandchamp við austurenda Genfarvatns. Til að byrja með var hópurinn ekki stór en í dag tilheyra um 50 systur á öllum aldri og með fjölbreyttan bakgrunn samfélaginu, flestar búsettar í Grandchamp. Þær bjóða alla gesti velkomna, óháð kyni og trúarafstöðu, og hægt er að dvelja hjá þeim um lengri eða skemmri tíma, taka þátt í vinnu þeirra og trúariðkun. Grundvöllur systrasamfélagins er þríþættur: Bænalíf, líf í samfélagi og gestrisni.

Rík tengsl eru við samkirkjulega bræðrasamfélagið í Taizé í Frakklandi sem bróðir Roger Schütz (1915-2005) stofnaði árið 1940 eftir að hafa leitað til systranna í Grandchamp um samstarf. Söngvarnir frá Taizé, endurtekin, einföld, biblíuleg stef sem sungin eru í bænaranda, eru stór hluti af bæna- og kyrrðarstundum systranna. Þá voru einnig tengsl á milli fyrstu systranna og Paul Couturier (1881-1953) sem var í forystu fyrir endurnýjun bænaviku fyrir einingu kristinna manna um miðja síðustu öld og stofnaði samkirkjulega hópinn Group des Dombes árið 1937. Sá hópur hittist enn árlega, eina viku í september.

UM SAMSTARFSNEFND KRISTINNA TRÚFÉLAGA Á ÍSLANDI

Samstarfsnefnd kristinna trúfélaga Íslandi hóf störf árið 1979, en á prestastefnu á Eiðum tveimur árum áður var samþykkt tillaga þessa efnis. Í fyrstu var nefndin skipuð fulltrúum Þjóðkirkjunnar, Kaþólsku kirkjunnar, Aðventkirkjunnar og Hvítasunnukirkjunnar Fíladelfíu undir forystu sr. Ólafs Odds Jónssonar. Fljótlega bættist Hjálpræðisherinn í hópinn.
Þessi skipan nefndarinnar hélst í rúm 20 ár en með starfsreglum frá 2002 var ákveðið að opna nefndina fleiri kristnum trúfélögum. Nú eiga níu kristin trúfélög og hópar aðild að nefndinni.

Fulltrúar í Samstarfsnefnd kristinna trúfélaga á Íslandi árið 2020 voru:
    • Aðventkirkjan – dr. Eric Guðmundsson
    • Fíladelfía – Helgi Guðnason, forstöðumaður
    • Hjálpræðisherinn – Ingvi Kristinn Skjaldarson flokksleiðtogi
    • Íslenska Kristskirkjan – Ólafur H. Knútsson safnaðarprestur
    • Kaþólska kirkjan – dr. Jakob Rolland
    • Óháði söfnuðurinn – sr. Pétur Þorsteinsson
    • Rússneska rétttrúnaðarkirkjan – sr. Timur Zolotuskiy
    • Betanía – Magnús Gunnarsson, pastor
    • Þjóðkirkjan – dr. María Ágústsdóttir og Magnea Sverrisdóttir djákni

Meginviðfangsefni SKT er að skipuleggja og framkvæma Alþjóðlega samkirkjulega bænaviku fyrir einingu kristninnar, sem haldin er á norðurhveli jarðar 18. – 25. janúar ár hvert. Undanfarin áratug hefur bænavikan einnig verið haldin á Akureyri fyrir tilstilli samkirkjulegs hóps þar og bænarefnin eru notuð víðar í kirkjum landsins þessa daga.