Hvar eru þau nú? Ásinn

7. janúar 2021

Hvar eru þau nú? Ásinn

Bigir Ás unir hag sínum vel í Danmörku

Þau gegna lykilhlutverki í kirkjum og við kirkjulegar athafnir. Það heyrist ekki hátt í þeim sjálfum. En frá hljóðfærunum sem þau fara höndum um streyma sígildir tónar við ýmsa athafnir. Í sorg og gleði. Himneskir tónar.

Þau sitja á orgelbekknum og það fer ekki mikið fyrir þeim. En kirkjan væri fátæk án þeirra.

Síðan hætta þau störfum. Og sæti þeirra á orgelbekknum er vermt af öðrum.

Menn koma og fara.

Hvar eru þau nú?

Hvar er organistinn Birgir Ás Guðmundsson? Margir kannast við hann enda lék hann víða á orgel, var forstjóri Heyrnar- og talmeinastöðvar Íslands og kenndi mörgum guðfræðistúdentum að beita röddinni rétt.

Hann hefur búið úti í Danmörku frá árinu 2007. Keypti sér íbúð í Kaupmannahöfn og kann vel við sig. Dóttir hans býr í Árósum. Annars á hann sex börn, eitt er látið. Birgir Ás er fæddur árið 1939 - stundum var hann kallaður Ásinn.

Birgir Ás aflaði sér traustrar menntunar sem organisti, síðast var hann fastráðinn við Bústaðakirkju en hætti þar 1977. Fyrsta kirkjan þar sem hann lék á orgel sem launaður organisti var Fríkirkjan í Hafnarfirði og þar urðu árin sex.

Af hverju orgel?

Hann byrjaði á að leika á harmonikku. Gekk í harmonikkuskóla hjá Karli Jónatanssyni og fékk að spila fimm lög í útvarpinu. Karli leist vel á piltinn og valdi hann til að þenja nikkuna í gömlu Gufunni.

Bergsætt
Birgir Ás hóf nám í orgelleik 1960, fyrst hjá Þorleifi Erlendssyni frá Jarðlangsstöðum í Borgarfirði. Hann var kennari og organisti, mikill vinur Freysteins Gunnarssonar, skólastjóra Kennaraskólans, en Birgir Ás var í kennaranámi og lauk því 1960. Þegar Þorleifur áttaði sig á því að Birgir Ás væri af Bergsætt sagði hann umsvifalaust: „Þá geturðu lært á orgel!“ Hann kenndi Birgi Ás, var á níræðisaldri og sofnaði stundum í tímum, segir Birgir enda hann slitinn eftir langa ævi. Þorleifur var ötull maður í öllu sem hann tók sér fyrir hendur. Þegar hann komst að því að Birgir Ás hafði verið ættleiddur níu mánaða gamall einhenti hann sér í það að leita að móður hans. Og hann hafði upp á henni. Líka ömmu hans.

Þorleifur og dr. Páll Ísólfsson voru vinir, og hann fór með Birgi niður í Dómkirkju og segir við hann: „Ég er kominn hérna með hann frænda þinn og vil að þú kennir honum á orgel.“ Þá segir dr. Páll við Þorleif: „Kenndu honum allt sem þú kannt og komdu svo með hann til mín.“ Og það varð úr. „Ég var hjá doktor Páli í fjögur ár og hélt síðan utan til Danmerkur til að læra sálfræði og fleira,“ segir Birgir Ás.

„Orgelið er merkilegt hljóðfæri og ég reyndi alltaf að draga fram mýkt hljómanna rétt eins og lærifaðir minn, dr. Páll kenndi mér og hafði í hávegum,“ segir Birgir Ás. Hann minnist dr. Páls með miklum kærleika og segir: „Páll gaf ungum nemendum allt og tók ekkert fyrir. Finnast þvílíkir öðlingar í dag?“

Passíusálmalög skrifuð upp

Birgir Ás og Þorleifur tóku sér fyrir hendur mikið verk en það var að skrifa upp gömlu lögin við Passíusálmana. „Ég held á einu eintaki meðan ég tala við þig,“ segir Birgir Ás glaður í rómi, „ég skrifaði þetta allt upp eftir Þorleifi.“ Segist hafa verið rétt rúmlega tvítugur maður og nýbyrjaður að kenna í Kópavogi. Hann fór til Þorleifs um sumarið á hverjum degi og Þorleifur söng lögin fyrir unga manninn og hann skrifaði þau samviskusamlega niður með tónvissu eyra Bergsættarinnar sér til halds og trausts. „Svo sofnaði Þorleifur iðulega á milli sem hann söng gömlu Passíusálmalögin,“ segir Birgir Ás og hlær glaðlega yfir minningunum, „og ég beið eftir því að hann vaknaði, já þetta var mikil þolinmæðisvinna.“ Allar nótur voru handskrifaðar, ekkert segulband notað. „Það var magnað hvað hann var lagviss og skyldi muna þetta allt,“ segir Birgir Ás hugsi og fullur aðdáunar, bætir svo við: „Ég á enn pennann sem ég notaði við að skrifa lögin upp eftir honum.“

„Síðan var þetta gefið út árið 1961 í tvö hundruð eintökum,“ segir Birgir Ás. Hann var með fjörutíu í fórum sínum sem verkalaun. „Ég fór svo með tuttugu eintök í Bókabúð Sigfúsar Eymundssonar til hans Steinars Þórðarsonar sem þar vann en við þekktumst vel úr KFUM,“ segir Birgir. „Steinar varð yfir sig hrifinn og smellti þessu út í gluggann og það var ekkert annað en að þau ruku öll út samdægurs.“

Menningararfur
„Ég er stoltur að hafa ritað þessi gömlu lög niður og komið í veg fyrir að þau glötuðust mörg hver,“ segir Birgir Ás. Hann segist ekki hafa gert sér grein fyrir því að hann væri að bjarga verðmætum enda ungur að árum.

Síðar kynntist Birgir Ás séra Sigurbirni Einarssyni, biskupi. Nokkru áður en Birgir Ás hélt utan til Danmerkur fór hann á fund séra Sigurbjörns. Hann söng eitt gömlu laganna við Passíusálma séra Hallgríms sem hann hafði skráð niður eftir Þorleifi Erlendssyni. Séra Sigurbjörn varð yfir sig hrifinn af laginu og þeir sungu það nokkrum sinnum saman og fleiri lög. Birgir Ás færði honum svo eintak af Passíusálmalögum þeirra Þorleifs að gjöf.

Nám í Danmörku

Þegar hann kom félítill til Danmerkur 1964 hélt hann áfram orgelnámi. Kennari hans við tónlistardeild Danmarks Lærerhøjskole var Carl Riess, kantor við Marmorkirken í Kaupmannahöfn. Hann minnist þess að hafa farið heim til kantorsins og hitt þar fyrir konu hans. Birgir Ás sagði henni að sig langaði til að læra á orgel hjá manninum hennar. Hún minntist þessa atviks síðar og sagðist aldrei gleyma því þegar þessi ungi og mjög svo einbeitti maður frá Íslandi kom í þessum erindagjörðum og talaði all bjagaða dönsku – en nú talar Birgir Ás flydende dansk eins og sagt er.

Snúist í mörgu

Íslendingurinn ungi lagði stund á annað nám í Danmörku samhliða sálarfræði og organslætti. Hann stundaði nám í heyrnarfræðum við Statens Høreinstitut Fredericia og lauk prófum í heyrnar- og talmeinafræðum frá Danmarks Lærehøjskole 1970.

Eftir Danmerkurdvölina kom hann heim og hélt áfram orgelnámi og samhliða lauk hann prófi sem löggiltur talmeinafræðingur. Hann var fyrst organisti við Fríkirkjuna í Hafnarfirði í sex ár. Síðan fastráðinn organisti við Bústaðakirkju í fjögur ár og það var mikill álagstími enda voru til dæmis á annan tug hjónavígslna suma laugardagana. Samhliða organistastörfum var hann forstjóri Heyrnar- og talmeinastöðvarinnar. Vinnuálagið var mikið í kirkjunni og hann hætti þar störfum þar sem það fór ekki saman við starf hans hjá Heyrnar- og talmeinastöðinni. Enda þótt hann léti af föstu organistastarfi þá var hann við orgelið mjög víða. Til dæmis við helgistundir á Landakoti, Hafnarbúðum, sem þá var sjúkradeild fyrir gamat fólk, og Grensásdeild og Víðistaðakirkju í Hafnarfirði. Hann var ætíð boðinn og búinn til að leysa organista af og lék því víða, eins og við Dómkirkjuna og Háteigskirkju. Jafnhliða organistastörfum var hann stundakennari við Leiklistarskóla Íslands og við  guðfræðideild Háskóla Íslands. Birgir Ás hefur enda ætíð haft mikla ánægju að snúast í mörgu og verið hinn starfsamasti og greiðviknasti maður.

Í KFUM

Birgir Ás segir að sr. Friðrik og orgelkennari hans, Þorleifur, hafi verið góðir vinir og þekkst vel og verið á svipuðum aldri – sr. Friðrik átta árum eldri. Hann sótti snemma fundi í hinu kristilega félagi og kunni vel við það. Allt höfðaði til drengsins, söngurinn, biblíusögurnar og umhverfið. Viðverubækur hans bera órækan vott um að hann sótti fundina vel en kvittað var í þær eftir hvern fund.

„En séra Friðrik var ekki mikið á fundum því að hann orðinn það gamall,“ segir Birgir Ás.

Á fundum í KFUM var oft leikið á píanó eða orgel, harmóníum. Þegar leikið var á orgelið hafði það alveg sérstök áhrif á Birgi Ás. Hljóðfærið virtist strax eiga hug hans og hjarta og drengnum vöknaði um augum í hvert sinn er hann heyrði leikið á orgelið. Það var fyrirboði þess að slíkt hljóðfæri yrði hans. Enda það drottning hljóðfæranna. 

Birgir Ás minnist Vatnskógardvalar tíu ára gamall. Morguninn hefur verið tími hans og því ætíð árrisull. Svo var líka þá hann var drengur. Vaknaði snemma, fór niður að bursta tennur og síðan út. Þetta var ekki vel séð og fékk hann ákúrur fyrir sem og aðrir strákar er voru snemma á fótum. Þeir voru látnir hírast úti í skógi fram að morgunmat í kaldri rigningu. En þegar inn var komið streymdi hlýjan og kærleikurinn frá séra Friðriki og hann sagði þeim að þetta væri nú fyrirgefið í anda frelsarans en þeir skyldu ekki vera með neinn hávaða þegar þeir færu svona snemma út á morgnana.

Blessun út í lífið
„Sr. Friðrik hafði náttúrlega sérherbergi og það mátti enginn trufla hann,“ segir Birgir Ás. „Ég dróst að honum og sætti lagi að skjótast inn í herbergið hans og hann fagnaði mér innilega og talaði við mig eins og hann ætti í mér hvert bein.“ Sr. Friðrik blessaði hann með þeim orðum að munnur hans skyldi aldrei mæla neitt ljótt, eyrun aldrei heyra neitt ljótt né augu hans sjá neitt ljótt. Þessi blessun var sem helg athöfn á Amtmannsstíg og Birgi Ás finnst minningin vera ljúf, nánast heilög, og hafi hann verið á tíunda ári þegar sr. Friðrik blessaði hann. Birgir Ás segist hafa litið á þessi orð sem nokkurs konar vernd í lífinu.

Sáttur við Guð og menn

Birgi Ás líður vel í Danmörku. Hann hrósar allri þeirri þjónustu sem hann fær sem eldri borgari. Einna helst háir honum slæmska til gangs en það stendur allt til bóta þar sem hann er búinn að fara í mjaðmaaðgerðir, báðum megin. Svo er hann ungur í anda. Það skiptir miklu máli. Hann er í góðu samandi við börnin sín fimm sem eru á lífi og svo fylgist hann vel með fréttum heiman frá Íslandi.

Ævintýri í húsi Guðs
„Þegar ég lít til baka sem aldraður maður finnst mér gæfan og lífið hafa verið mér hliðhollt,“ segir Birgir Ás. „Ég er afar hamingjusamur maður og kirkjan hafði gríðarlega mikil og góð áhrif á mig, bæði tónlist og hið talaða orð.“ Og hann bætir því við að öll þjónusta hans í húsi Guðs hafi verið samfellt ævintýri sem hann sé ævilangt þakklátur fyrir.

Sem sagt: Organistinn ágæti og talmeinafræðingurinn, Birgir Ás Guðmundsson, sem spurt var í upphafi hvar væri, er í Danmörku og unir sér þar sæll við liðna tíð og góðar minningar.

hsh


Drengurinn Birgir Ás leikur á harmonikku


Hér er Birgir Ás við orgel Marmorkirken í Kaupmannahöfn


Birgir Ás við orgel Bústaðakirkju en þar var hann organisti í fjögur ár 


Þorleifur Erlendsson sem Birgir Ás talar um í viðtalinu - hann lærði fyrst á þetta orgel hjá Þorleifi - mynd: Héraðsskjalasafn Austurlands


  • Menning

  • Samfélag

  • Tónlist

  • Trúin

  • Frétt

Í Breiðholtskirkju - Vigdís V. Pálsdóttir, formaður sóknarnefndar, þakkar fyrir gjöfina. Frá vinstri: Willy Petersen, Vigdís, og  sr. Magnús Björn Björnsson - mynd: hsh

Listaverk afhjúpað

17. maí 2021
...Breiðholtskirkja vekur innblástur
Á kirkjuþingi unga fólksins í Grensáskirkju. Frá vinstri: sr. Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands, Berglind Hönnudóttir, Daníel Ágúst Gautason og  Kristján Ágúst Kjartansson - mynd: hsh

Góður hópur

16. maí 2021
...kirkjuþingi unga fólksins lauk í gær
Grensáskirkja - steindir gluggar eftir Leif Breiðfjörð prýða kirkjuna

Kirkjuþing unga fólksins

15. maí 2021
...hófst í gær