Kirkjan opin

10. janúar 2021

Kirkjan opin

Kirkjan opin á tíma kórónuveirunnar - Laugarneskirkja

Nokkrar kirkjur auglýsa að þær séu opnar á ákveðnum tímum. Þá getur fólk ef það kýs komið og sest niður og átt sína stund. Þessar upplýsingar er að finna á heimasíðum og Feisbókarsíðum kirknanna.

Kirkjan.is fór á milli fimm kirkna í morgun á fyrsta sunnudegi eftir þrettánda.

Fyrst var komið við á Skólavörðuholtinu. Þar var mikil kyrrð og þegar bílnum var lagt skammt frá sást einhver starfsmaður kirkjunnar ljúka dyrum hennar upp. Klukkan var 11.00. Holtið var nánast mannauttt.

Inni í Hallgrímskirkju var hlýtt og í fjarska heyrðist þrusk í þeim er opnaði kirkjuna. Þessa stund sem kirkjan.is dvaldist í kirkjunni var ekki manneskju að sjá. Óneitanlega sérstök tilfinning að vera í þessum stærsta helgidómi landsins á messutíma og ekki sálu að sjá eða einn tón að heyra.

Síðan var haldið niður í Dómkirkju. Hinn aldni helgidómur hefur alltaf sinn höfðingsbrag á hverju sem gengur utan veggja hans. Þegar inn var komið sátu tvær manneskjur í kórnum. Það voru þau sr. Elínborg Sturludóttir og organistinn Kári Þormar. Þau fögnuðu komumanni innilega. Sr. Elínborg sagði að í þau skipti sem hún hefði staðið þessa vakt hefðu alltaf einhverjir komið.

Þá var haldið í Neskirkju. Þar hitti kirkjan.is sóknarprestinn, sr. Skúla Sigurð Ólafsson, glaðan í bragði þar sem hann stóð vaktina. Hann vakti athygli á listsýningu sem er í safnaðarheimilinu og mun standa eitthvað áfram. Sá er sýnir heitir Finnbogi Pétursson og er óhætt að hvetja alla til að skoða þá athyglisverðu sýningu sem lætur lítið yfir sér en er býsna merkileg. Nokkrar konur sem þar fóru um skoðuðu sýninguna og voru stórhrifnar.

Laugarneskirkja var opin frá kl. 11.00 og til kl. 13.00. Dyr voru opnar og logandi ljós við. Inni logaði á kertum og morgunbirtan umvafði bekki og veggi. Þar var kyrrð og engi maður þá stund er kirkjan.is leit þar við.

Árbæjarkirkja var sú fimmta. Slangur var af fólki á safnsvæðinu og einhverjir höfðu komið við í fallegu gömlu kirkjunni sem ilmar öll af sögu aldanna.

Kirkjan.is hvetur fólk til að fylgjast með opnunartíma sóknarkirkna sinna og nota tækifæri til þess að koma þar við og eiga stund á kirkjubekk. Hvort heldur á sunnudegi eða aðra daga.

Eins og kunnugt er verður rýmkað ögn um fjöldatakmarkanir í þessari viku og er fólk hvatt eindregið til að fylgjast vel með hvernig starfið í sóknunum dregur dám af þeim breytingum.

En streymið heldur áfram og verður svo þar til allt færist sem næst því í hið fyrra horf.

hsh


Allt er fagurt í Hallgrímskirkju


Þau voru á  vaktinni í Dómkirkjunni