Ráðstefna um guðsþjónustuna

18. janúar 2021

Ráðstefna um guðsþjónustuna

Lindevang-kirkja - nýtt skírnarform þar á bæ - mynd: hsh

Um helgina var haldin fjölsótt rafræn ráðstefna í Danmörku um guðsþjónustuna. Hátt á fimmta hundrað manns tóku þátt í henni en það var danska þjóðkirkjan sem skipulagði hana.

Þetta var lífleg ráðstefna og fólk lét skoðanir sínar óspart í ljós.

Umræðan um guðsþjónustuna hefur verið mjög svo lifandi á síðustu árum innan dönsku þjóðkirkjunnar. Sumt er fólk sammála um og annað ekki.

Öll þau sem koma til kirkju taka þátt í ákveðnu helgihaldi sem fer eftir vissum reglum – ákveðnum helgisiðum. Kannski leiðir það af sjálfu sér að það eru prestar og guðfræðingar sem láta álit sitt hvað mest í ljós á því hvernig guðsþjónusta gengur fyrir sig – aðrir halda sig á hliðarlínunni og telja sig ekki vera nægilega inni í málum til að láta að sér kveða.

Engu að síður hafa málin verið rædd úti í sóknunum og á öðrum kirkjulegum vettvangi. Þetta hafa verið hressilegir umræðufundir að sögn en kórónuveirufaraldurinn setti strik í reikninginn og fundum var frestað. Sama máli gegndi um umræðuna meðal prestanna og guðfræðinganna.

Kristeligt Dagblad tók saman fimm punkta sem snerta umræðu um guðsþjónustuna:

Er þörf á að endurskipuleggja guðsþjónustuna?
Þær raddir heyrast iðulega að forminu þurfi að breyta. Það sé svona og svona. Þau íhaldssamari telja að litlu þurfi að breyta í sjálfu sér. Guðsþjónustan sé ákveðið form af endurtekningu og formið gefi alltaf eitthvað nýtt af sér í hvert sinn sem það er haft um hönd. Þess vegna sé það sígilt. Søren Ulrik Thomsen, skáld, er sagður hafa hitt naglann á höfuðið, þegar hann ræddi um gildi helgisiðaforms sem væri ekki aðlagað að þörfum nútímans en sýndi styrk sinni í endurtekningunni. Nýleg bók hans Tro mod ritualet vakti mikla athygli.

Hvað er mikilvægt í sambandi við umræðu um helgihald?
Er það tilfinningin um að fólk sé einhuga um ákveðið form eða er það einhver guðfræði á bak við formið? Það hefur legið í loftinu að trúfræði og kirkjusaga vegi þyngra á metunum í guðsþjónustunni heldur en upplifun þess er tekur þátt í henni. Hið sama gildir um kirkjulega athöfn eins og skírn – og altarisgönguna. Í þeim er legið í hinni guðfræðilegu túlkun en upplifun þátttakenda minni gaumur gefinn. Skýrslur guðfræðinganna um hvort tveggja voru álitnar af mörgum sem ábending um að aðrir skyldu halda kjafti um málið – eins og það var orðað – eða trúfræðileg leikfimisæfing.

Hugmynd um helgisiðamiðstöð
Fólk hefur bent á að það væri alls ekki fráleitt að koma upp fræðamiðstöð fyrir alla um helgisiði kirkjunnar. Það væri lifandi umræðuvettvangur og tilraunastöð. Fölva hefur slegið á andlit hinna íhaldssömu þegar þetta er nefnt og þau telja að slík miðstöð gæti orðið of valdamikil og frek til rúmsins.

Skírnarformið
Spurningin hvort óskírt fólk sé ekki börn Guðs er sígild. Burtséð frá henni þá hafa mörg í klerkastétt talið þörf á að umorða skírnarformið. Bara svo að fólk skilji betur hvað verið sé að segja – að áliti margra. Synd og glötun hafa komið til umræðu í þessu sambandi – enda ekki lítið mál. En mörg eru þau sem telja að áður en breytingum sé ýtt úr vör þurfi að huga að guðfræðilegri undirstöðu. Í Lindevang-sókn í Frederiksbergs-prófastsdæmi í Kaupmannahöfn hafa verið gerðar tilraunir með skírnarformið og því breytt. Í því er undirstrikað að öll séum við börn Guðs og að skírnin frelsi fólk ekki frá einu né neinu. Ekki eru allir sáttir við þetta.

Íþyngir syndin um of kvöldmáltíðar-helgisiðaforminu?
Syndafyrirgefningin er kjarni kvöldmáltíðarformsins og sumum finnst hún vera full fyrirferðamikil í forminu. Sum leggja til að í nýju helgisiðaformi altarisgöngunnar komi það skýrt fram að um sé að ræða kærleikssamfélag Krists og manneskjunnar, þessa lífs og annars. Þau í Himmelev-sókn í Hróarskeldu hafa breytt altarisgönguatferlinu og má lesa um það á heimasíðu þeirra. Þau eru sögð hafa skrifað syndafyrirgefninguna út úr helgisiðaforminu og sé altarisgangan núna eingöngu minningarmáltíð.

Öllum hefur staðið til boða að leggja orð í belg og rennur frestur til þess út í lok mars.

Í Handbók kirkjunnar má lesa hvernig guðsþjónusta gengur fyrir sig í íslensku þjóðkirkjunni sem og ýmsar kirkjulegar athafnir. Þessi handbók var gefin út 1981 og hefur verið unnið að endurskoðun hennar. Væntanlega verða drög að nýrri handbók lögð fram á næstu prestastefnu.

Kórónuveirufaraldurinn hefur alið af sér mikla fjölbreytni í helgihaldi sem verður eflaust góður grunnur fyrir umræðu um guðsþjónustuform íslensku þjóðkirkjunnar þegar að því kemur.

Kristeligt Dagblad / hsh


  • Erlend frétt

  • Guðfræði

  • Menning

  • Samfélag

  • Trúin

  • Covid-19

Í Breiðholtskirkju - Vigdís V. Pálsdóttir, formaður sóknarnefndar, þakkar fyrir gjöfina. Frá vinstri: Willy Petersen, Vigdís, og  sr. Magnús Björn Björnsson - mynd: hsh

Listaverk afhjúpað

17. maí 2021
...Breiðholtskirkja vekur innblástur
Á kirkjuþingi unga fólksins í Grensáskirkju. Frá vinstri: sr. Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands, Berglind Hönnudóttir, Daníel Ágúst Gautason og  Kristján Ágúst Kjartansson - mynd: hsh

Góður hópur

16. maí 2021
...kirkjuþingi unga fólksins lauk í gær
Grensáskirkja - steindir gluggar eftir Leif Breiðfjörð prýða kirkjuna

Kirkjuþing unga fólksins

15. maí 2021
...hófst í gær